Stapi – Undirstöður og uppsetning

Hér er myndasería af því þegar Stapi var reistur á sumardögum 2018.  Myndirnar sýna hvernig undirstöður voru útbúnar fyrir húsið og einnig hvernig gólfgrindin var gerð.

Staurarnir eru gagnvarðir 2,7 metra langir 14 cm í þvermál og voru reknir tæpa tvo metra niður í mýrlendan jarðveginn með gröfunni.  Síðan var möl sett yfir.  Dregararnir eru úr 2″x6″ (45mm x 145mm) gagnvörðu timbri og boltaðir með 10mm borðaboltum.  Bitarnir, eða gólfgrindin, er gerð úr 2″x4″ (45mm x 95mm) gagnvörðu timbri og festir við dregarana með járnum.  Bjálkaskór voru settir á annan hvern bita til að tryggja húsið enn betur enda getur orðið mjög vindasamt á þessum stað þegar strengir koma niður af fjallinu.  Styrkingar (stormstoðir) voru settar utan á húsið en þær eru boltaðar við gólfgrindina og húsið.  (ATH! þegar slíkar stoðir eru settar er mikilvægt að götin sem gerð eru í gegnum stoðina séu ílöng svo að bjálkaveggurinn geti hreyfst upp og niður en timbur er lifandi efni og bregst við hita og raka og því er afar mikilvægt að hreyfigeta sé fyrir hendi).

Tilvitnun í kaupanda: ,,Við vorum þrjá tíma að koma staurunum fyrir, og svo sitthvorn daginn með grindina og húsið.  Mér sýnist að kostnaðurinn við grindina sé rétt tæpar 100 þús, enginn afsláttur bara grunnverð“